Lesnir;

28.12.05

Jól í Tübingen

Um miðjan dag 24. desember gafst ég upp og opnaði jólakortin. Á slaginu sex opnaði ég pakkana. Svona er maður óþolinmóður. En þetta má meðan maður er í útlöndum.

Eftir að hafa heimsótt ásamt slóvakískum kunningja mínum undirbúning búlgarsks jólagleðskapar á þriðju hæð hófum við matseldina hjá okkur, á fimmtu. Við í þessu tilfelli eru: Louis frá Kamerún, Anca frá Rúmeníu, Armagon og Hakan (minnir mig að hann heiti, hef aldrei hitt hann áður) frá Tyrkland
i, Karol frá Slóvakíu og ég.

Frá vinstri til hægri: ég, Anca, Louis, Armagon og Karol. Hakan tók myndina.

Þegar við vorum að elda, spyrja tyrkirnir allt í einu: ,,og hvers vegna haldið þið upp á jólin?” Þeir eru múslímar og hafa engar forsendur til að vita afhverju þetta hafarí allt saman er. Þetta er einmitt kjarni þess að fara erlendis, að kynnast öðrum menningarheimum sem ekki eru eins og sá sem maður fæddist í.

Það var vel étið og drukkið fram yfir miðnætti og mikið gaman.

26.12.05

Hlutleysi

Skilgreining: Stjórnmál eru hluti af sögunni.

Sagnfræðingar eiga að reyna eftir fremsta megni að sýna hlutleysi í störfum sínum. Fyrir mér er hlutleysi meðal annars að reyna að hafa ekki áhrif á framgang sögunnar. Því liggur í augum uppi, sbr. Skilgreininguna hér að ofan, að ef sagnfræðingur er flokksbundinn, tekur þátt í starfi stjórnmálaflokka eða nýtir kosningarétt sinn, er hann ekki hlutlaus. Því þá er hann að reyna að beina framgangi sögunnar í ákveðinn farveg umfram aðra.

21.12.05

Litlu-jólin í Tübingen

Í gærkvöldi (20. desember 2005) voru litlu-jólin haldin hátíðleg. Þar sem foreldrarnir höfðu gerst svo elskulegir að senda hangikjöt og Nóakonfekt, varð að koma þessu í lóg. Því hittumst við nokkrir Erasmussar (ca. 6 stykki, plús nokkrir ,,ekta” Þjóðverjar) heima hjá Sebastiaani Belga og átum. Þetta var í fyrsta skipti sem ég eldaði jafning, en það heppnaðist furðu vel (soldið kekkjóttur samt). Hangikjötið var æði og ekki skemmdi fyrir að ég hafði fundið í verslun (Penny-Markt, varúð Íslendingar: þetta er hættuleg búð. Ég á eftir að gráta þegar ég versla aftur heima, eins og ég skríti af gleði þegar ég kom fyrst í penný. Svo skilst mér að hér ,,útá landi” sé hún alltað helmingi dýrari en t.d. í Berlín. Ég hætti mér ekki þangað.) drykk sem heitir Malz og annan sem heitir Comet appelsínulímonaði. Malzið bragðast næstum eins og vífilfelsmalt (sumsé hroðalega) og cometið er ekki nálægt Egils appelsíninu. En saman er þetta merkilega líkt Maltogappelsíni. Sumsé næstum eins og heima bara. Svo hafði ég líka fundið rauðkál og grænar baunir. Í eftirrétt var svo belgískt súkkulaðifondú (og Nóakonfekt auðvitað). Frábært. Svo var náttúrulega þýskur jólabjór að auki og ég veit ekki hvað og hvað.

Það gætti reyndar örlítilla fordóma í byrjun, þ.e. uppi voru kenningar um að hér væri mörgæsakjöt á ferðinni. Þær hugmyndir voru samt dregnar fljótt til baka með afsökunarbeiðni eftir að viðkomandi hafði smakkað. Svo fannst fólki stórfurðulegt að ég skyldi sjóða kartöflurnar með hýðinu, það er ekki venjan í útlandinu. Fólki létti samt þegar ég skrældi þær áður en þær fóru í sósuna.

Sumsé frábær íslensk litlu-jól í Tübingen.